Header

Samhjól á sunnudaginn

febrúar 1st, 2012 | Posted by admin in Efni | Samhjól - (72 Comments)

Samhjól
Hjólamenn halda annað samhjól ársins n.k. sunnudag 5. febrúar. Mæting er við GÁP í faxafeni 7. Lagt verður af stað kl. 10 og hjólað í um tvær klukkustundir. Boðið verður upp á léttar veitingar á eftir.

Konan sem fann upp hjólið

nóvember 23rd, 2011 | Posted by admin in Efni - (69 Comments)
Kínverjar þykja ekki góðir uppfinningamenn. Þeir stæla og líkja eftir flestum vörum frá Vesturlanda, klína á þær kínverskum nöfnum og fullyrða blákalt að um kínverskt hugvit sé að ræða. Þeir svífast einskis í þessum efnum eins og sjá má af meðfylgjandi mynd.
Þetta er fimmtugur hermaður sem telur sig hafa fundið upp hjólið. Aftur. Framhjólið er fimmhyrnt og afturhjólið þríhyrnt og fyrir vikið er gripurinn svo hastur að eigandinn er með ólæknandi rasssæri. Það er aukaatriði því hann er stoltur af hjólinu sínu en eins og allir vita er hjólið oft ofar í virðingarröðinni en maki og börn. Vegna augljósra hönnunargalla á kínverska hjólinu er mér til efs að eigandinn sé frjór eftir notkun þess.
Það þykir góður samkvæmisleikur að spyrja fólk hvaða fræga einstaklinga úr fortíðinni það vill helst hitta og taka tali. Nefna þá margir Vilhjálm Sjeikspír, Jóhönnu af Örk, Gandhi, Hitler, Maríu mey, da Vinci og Marilyn Monroe. Þetta er smekksatriði og segir meira um viðkomandi en margt annað. Ég hef fengið þessa spurningu og svaraði á þá leið að ég vildi helst hitta konuna sem fann upp hjólið.
Hefðbundnar söguskýringar ganga út frá því að karlmaður hafi fundið upp hjólið vegna hyggjuvits síns og ofurgreindar en hvort tveggja eru eiginleikar sem ku fylgja því að hafa tippi. Þó voru karlmenn fyrri tíma þekktari fyrir meira strit en vit og lærðu snemma að láta konur sínar og börn um aðalskítverkin, svo sem að draga eða bera heim eldivið, mó, hey og annað sem þurfti í lífsbaráttunni í þá daga. Það gefur auga leið að skynsöm kona hefur einhvern tíma á steinöld eða bronsöld ákveðið að slíta baki sínu ekki út að óþörfu og fundið upp hjól til að festa á burðargrind eða vögur. Framhaldið þekkja allir og meðan við geysumst um stíga og götur á karbónfákum okkar eigum við að hugsa hlýtt til konunnar sem fann upp hjólið.

Að hjóla einn eða í hóp

nóvember 11th, 2011 | Posted by admin in Efni - (8 Comments)

Að hjóla er mjög góð líkamsrækt. Þú ferð í hjóladressið, skellir þér upp á reiðfákinn og svo er haldið á vit ævintýranna. Sumir vilja frekar hjóla einir með sjálfum sér og aðrir kjósa að vera í góðum félagsskap. Það er reyndar aðeins meira en bara góður félagsskapur sem maður fær útúr því að hjóla í hóp. Það er mikil hvatning að vera með öðrum og oftar en ekki leggur maður meira á sig til að halda í við hópinn og þar af leiðandi fær maður betri æfingu fyrir vikið. Það getur líka verið ótrúlega gaman að lenda á spjalli við hjólafélaga og tala um heima og geima. Svo er þetta líka góð leið til að kynnast samferðarmönnum/konum betur.

Þegar maður er ein/n á ferð þarf að passa sig á því að vera vel “græjaður”, vera með auka slöngu, hafa verkfæri meðferðis, ekki er verra að hafa hjólabætur með og svo góða pumpu. Að sjálfsögðu þarf maður að vera með allt þetta þegar maður er í hóp, en það er þó ekki hundrað í hættunni þó eitthvað gleymist heima.

Að lokum má nefna öryggisþáttinn á því að vera í hóp. Þegar hjólað er í myrkri þá lýsa mörg ljós betur en eitt og hópur er sýnilegri enn stakur hjólreiðamaður. Einnig er gott að vita af því ef eitthvað kemur fyrir þá kemur hópurinn fljótt til bjargar. Munum bara að fara alltaf varlega hvort sem við erum í hóp eða ekki.

Bjartur verður íþróttafélag

nóvember 4th, 2011 | Posted by admin in Efni - (Slökkt á athugasemdum við Bjartur verður íþróttafélag)

Á síðasta aðalfundi Bjarts var ákveðið að stofna Bjart sem íþróttafélag og var formlegri umsókn skilað inn á skriftstofu ÍBH nú fyrr í vikunni. Umsóknin verður síðan tekin fyrir á fundi aðalstjórnar ÍBH á n.k. mánudag. Ferlið verður síðan eftirfarandi.

  1. Tilkynning send til ÍSÍ
  2. Lagt fyrir laganefnd ÍSÍ
  3. Lagt fyrir framkvæmdastjórn ÍSÍ
  4. Staðfesting aðildar á Ársþingi íþróttabandalagsins
  5. Sjálfvirk innganga í Hjólreiðanefnd ÍSÍ eftir staðfestingu á ársþingi

Gera má ráð fyrir að þetta taki sinn tíma að fara í gegnum kerfið. Bjartur ætlar samt sem áður að taka inn nýja félaga á næsta fundi í desember en fundurinn verður auglýstur nánar síðar.

Ástjarnarspretturinn 2011

september 27th, 2011 | Posted by admin in Efni - (2 Comments)
Viktor

Það átti enginn séns...

Það voru kátir Bjartsmenn sem lögðu leið sína að hinni margrómuðu Ástjörn síðastliðinn laugardag. Þá fór fram uppskeruhátíð Bjartsmanna en fyrst á dagskrá var Ástjarnarspretturinn. Hjólaðir voru 5 hringir í kringum Ástjörn eins og undanfarin ár og ræst er út með 30 sek millibili. Keppnin var gríðarlega spennandi og fylgdist fjöldi með og hrópuðu hvatningarorð að keppendum eins og enginn væri morgundagurinn. Spár veðbanka fyrir keppnina bentu til þess að sigurvegari yrði krýndur síðar um kvöldið. Sú spá stóðst og var það Viktor Þór Sigurðsson sem var krýndur Bjartsmeistari árið 2011. Viktor lauk keppni á tímanum 37 min og 26 sek og sló þar með fyrra brautarmet Helga Hinriks um 3 min. og 44sek. Þess má geta að allir hringir Viktors voru hraðari en hröðustu hringir annara Bjartsmanna. Viktor hjólaði þetta gríðarlega vel og bætti sig um 7 min og 15 sek!  Carbon-baróninn Bergþór Jóhannsson varði annað sætið frá því í fyrra og lauk keppni á  41 min. og 11 sek. Í þriðja sæti varð Magni Samsonarson á tímanum 42 min. og 29 sek. Að keppni lokinni var slegið upp glæsilegri veislu að hætti Bjartsmanna í óðali Hr og Frú Carbon og fá þau miklar þakkir fyrir að opna óðalið upp á gátt fyrir Bjartsmenn. Að lokum var svo farið yfir sigra árins og þess næsta.

Sæti Nafn Hr 1 Hr 2 Hr 3 Hr 4 Hr 5
1 Viktor 00:07:18 00:07:21 00:07:27 00:07:43 00:07:37
2 Bergþór 00:08:12 00:08:11 00:07:59 00:08:44 00:08:05
3 Magni 00:08:20 00:08:22 00:08:38 00:08:38 00:08:31
4 Árni 00:08:24 00:08:34 00:08:53 00:08:46 00:08:27
5 Birgir 00:08:21 00:08:50 00:08:38 00:08:42 00:08:34
6 Kristinn 00:08:35 00:08:22 00:08:48 00:09:01 00:08:46
7 Þorsteinn 00:08:54 00:08:59 00:09:14 00:08:54 00:09:40
8 Jóhann 00:09:06 00:09:06 00:09:24 00:10:15 00:11:11
9 Hugi 00:10:29 00:11:20 00:11:24 00:11:32 00:11:13
10 Gunnar 00:08:30 DNF
11 Róbert DNF

Bjartsmenn þakka Hauki Magnússyni fyrir frábærar myndir af keppninni.

https://picasaweb.google.com/112557247056099887501/Aslandssprettur