Header

Engar afsakanir takk..

desember 17th, 2009 | Posted by admin in Allgemein - (735 Comments)
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=myDYE49KPlQ[/youtube]

María Ögn Guðmundsdóttir og Steinn Jóhannsson

María Ögn Guðmundsdóttir og Steinn Jóhannsson

Steinn Jóhannsson og María Ögn Guðmundsdóttir voru valin þríþrautarfólk ársins 2009 á árshátið Þríþrautarfólks á föstudaginn síðastliðinn. Árshátíðin var haldin í veislusal í Ásvallalaug og mættu tæplega 30 þríþrautarmenn alls staðar af landinu. Áður en auglýst dagskrá hófst var tekin „létt“ sundæfing undir leiðsögn Steins Jóhannssonar. Síðar um kvöldið var meðal annars mótaskrá 2010 kynnt og ákveðið að stofna Þríþrautarfélag Íslands snemma á næsta ári. Ólympísk þríþraut er 1500m sund, 40km á hjólinu og 10km hlaup. Járnkarl (Ironman) er 3,8km sund, 180km hjól og 41,2km hlaup.

Ég hélt ég hefði séð allt…!

desember 5th, 2009 | Posted by admin in Allgemein - (12 Comments)

Svo sá ég þetta hér úr bambus!

boor9

Boo R9 Road Frame

Hreyfa sig?

desember 2nd, 2009 | Posted by admin in Allgemein - (786 Comments)

Birt með góðfúslegu leyfi Trausta Valdimars.

Öll þiggjum við hreyfiþörf í vöggugjöf. Börnum er hreyfing eðlileg nema búið sé að hemja þau t.d. með sjónvarpi eða tölvu. Þau eru alltof oft keyrð í skólann og látin sitja kyrr allan daginn. Dagleg hreyfing er okkur nauðsynleg eins og súrefni, drykkur, matur og svefn. “Bætt lífsgæði” síðustu áratugi með bílavæðingu og alls konar þægindum hafa minnkað daglega hreyfingu. Samtímis hefur flætt yfir okkur orkuríkur matur með augljósum afleiðingum. Ofnæring og offita barna og fullorðinna er hratt “vaxandi” vandamál á Íslandi.

Kyrrseta og offita orsaka marga sjúkdóma og kvilla. Sykursýki, háþrýstingur, hjarta- og æðasjúkdómar eru mjög alvarlegir og kostnaðarsamir. Slitgigt og verkir í baki og stoðkerfi ganga oft í bandalag við yfirþyngd og bitna á lífsgæðum sem og vinnugetu. Skortur á daglegri hreyfingu getur líka verkað letjandi á “innvortis” hreyfingu ristils. Ristilkrabbamein er algengara við offitu og langvarandi hægðatregðu.

Kvillar sem tengjast offitu og vanþjálfun láta undan síga og geta horfið við reglubundna hreyfingu. Fyrir utan bætta heilsu og lífsgæði minnka útgjöld ríkisins til heilbrigðismála og nú er þörf sem aldrei fyrr er kreppir að í samfélaginu. Góð hreyfing bætir auk þess svefn og getur komið í stað lyfja við svefnleysi, sem og þunglyndi,  kvíða og ofvirkni.

Ýmsir kúrar gegn offitu hafa skiljanlega gegnum tíðina freistað þeirra sem eiga við offitu að stríða. Margir kaupa sér lausn vandans í von um að láta gylliboð “laga sig”. Matarkúrar koma og fara. Fólki er jafnvel boðið upp á meðferð sem felst í að svelta sig og láta skola ristillinn til “afeitrunar” og því lofað bata við mörgum lífstílstengdum sjúkdómum. Átak til bættra lífshátta virkar oft vel tímabundið en aðeins á meðan á því stendur. Oftast koma aukakílóin fljótt til baka með vöxtum þegar fyrri venjur taka við.

Hreyfing er undralykill sjálfrar náttúrunnar að betri heilsu, málið er ekki flóknara en það. Sprikl í minnst 30 mínútur á að vera á baugi okkar daglega lífs. Ekki í nokkrar vikur eða mánuði heldur ævilangt! Við erum hönnuð til þess að hafa fyrir lífinu og eigum því samkvæmt að finna daglega fyrir mæði, hjartslætti og svita. En þar sem hreyfingin hefur ekki lengur hvata lífsbjargar og fæðuöflunar þarf hún að vera skemmtileg. Jákvætt hugarfar hjálpar í byrjun en allt er betra en ekkert og allir eiga að geta fundið hreyfingu sem hentar. Hressilegar göngur og dans hafa fylgt manninum frá örófi alda.

Göngur, skokk og hlaup er einfalt að stunda þar sem ekki þarf útbúnað nema góða skó og tíminn er frjáls. Góð aðferð til aðhalds er þó að vera með í göngu- eða hlaupahópi og “þurfa að mæta” – líka fyrir hina. Maður er manns gaman. Líkamsræktarstöðvar eru ágætar en veðrið á Íslandi er næstum alltaf gott ef maður bara drífur sig út. Aldrei of kalt og sjaldan of heitt. Á Íslandi er líka ljúft að synda. Hetjur stunda sjósund. Hvergi eru fleiri, betri né ódýrari sundlaugar. Áhrifarík sjúkdóma- og líftrygging aldraða er að fara daglega í sund, sérstaklega ef synt er en líka er fínt að fara í pottinn og spjalla. Gott er að nota tækifærið og koma sér milli staða með eigin orku. Göngum, skokkum eða hjólum. Gefum bílum frí. Hækkum skatta á bíla en fellum niður öll gjöld á reiðhjólum! Leggjum hlaupa- og reiðjólastíga meðfram öllum vegum!

Margt batnar við daglega hreyfingu. Nægjanleg hreyfing sem gefur góða útrás bætir ofvirkni, kvíða og þunglyndi. Leikfimi og útileikir ættu að vera á stundaskrá daglega í öllum skólum, einnig framhaldsskólum. Nám og starf verður auðveldara eftir gott sprikl. Matur bragðast líka betur eftir áreynslu. Besta kryddið er hungur! Og við sem spriklum getum borðað meira án þess að þyngjast. Reglulegri þjálfun fylgir oftast löngun í hollari mat en minni lyst á áfengi og öðru sukki.

Mikilvægt er að láta ekki deigan síga því að við langvarandi veikindi, slys eða meiðsli rýrna fljótt vöðvar, liðir stirðna og formið versnar á nokkrum vikum. En oftast má finna einhverja hreyfingu við hæfi og allt er betra en ekkert. Hér koma sjúkraþjálfarar oft til hjálpar. Ef álagsmeiðsli trufla hlaupin má hjóla eða synda. Gott er líka að nota tækifærin í daglega lífinu. Þjálfa grindarbotnsvöðvana á klóinu. Ganga frekar upp stigana en bíða eftir lyftunni. Þau okkar sem hætta að ganga upp tröppurnar hætta líka fyrr en ella að geta gengið upp. Allt bilar sem ekki er notað. Ef við hættum að gera það þá hættum við að geta það!

Setjum raunhæf markmið og verum meðvituð. Þannig náum við árangri. Gott er að skrá hve mikið við spriklum. Sjálfstraustið batnar og lífsgleðin vex þegar við finnum að við erum að ná árangri og komast í betra form. Það veit sá er reynir að við það verður lífið yndislegra og auðveldara.

Hreyfiþörfin er vöggugjöf og það aldin vill springa út. Spilum með skaparanum og móður jörð. Yngjum haminn og  leysum skrokkinn úr læðingi. Til ham-yngju þið sem verðið með í gleðinni 22. ágúst!

Árshátíð og fundur þríþrautarfólks

nóvember 29th, 2009 | Posted by admin in Allgemein - (12 Comments)

Árshátíð og fundur þríþrautarfólks og Þríþrautarfélags Reykjavíkur verður haldin föstudaginn 4. desember 2009 í Ásvallalauginni í Hafnarfirði. Áhugafólk um þríþraut er hjartanlega velkomið ! Upplýsingar á www.triceland.net Þriþrautarfélag Reykjavíkur